NFS syrgt

c_documents_and_settings_user_my_documents_my_pictures_nfs.jpg

Jæja, þá er búið að tilkynna opinberlega að NFS verði lokað. Í tilefni af því mun hefjast blogg um fjölmiðla, innihald þeirra, útlit, dreifingu og ja, hvað annað sem mér dettur í hug.

Fréttir af NFS koma ekki mikið á óvart, sérstaklega þar sem hann Denni er búinn að vera mjög duglegur að blogga innanbúðarupplýsingum um stöðu mála. Líkt og þegar hann hélt úti frettir.com, virðist Denni eiga góða vini hjá fyrrum Norðurljósum sem láta hann vita hvað er í gangi og senda honum innanhúspóst.

Þrátt fyrir að Siggi Stormur eigi erfitt með að þola úrtölufólk, líkt og hann sagði á Bylgjunni í dag, verð ég að segja að ég hafði ekki mikla trú á NFS konseptinu. Sérstaklega eftir að það var ljóst að Fréttaveitan sem átti að veita fréttum til NFS, Fréttablaðsins og Vísis og spara þannig blaða/fréttamenn á öllum stöðum, virkaði aldrei í raun. Þá skildi ég aldrei af hverju morgun- og síðdegisdagskráin var alveg eins. Þeir voru mjög fáir þættirnir sem voru eitthvað annað en almennt hjal. Það var einna helst Kompás, sem einnig var sýndur (og verður væntanlega enn) í opinni dagskrá Stöðvar 2

Þrátt fyrir þetta mun ég sakna NFS úr fjölmiðlaflórunni. Það kom fyrir að gullmolar stóðu upp úr hjalinu og stöðin átti sína bestu spretti þegar hægt var að senda beint frá einhverjum merkisatburði, sem varð til þess að Rúv hóf að senda beint frá viðburðum sem hefði ekki gerst annars. Þá stóð NFS sig mjög vel í sveitarstjórnarkosningunum, sérstaklega í hringferð sinni um landið, en einnig í almenna hjalinu þar sem frambjóðendur og misvitrir sérfræðingar fengu að tjá sig um sveitarstjórnarmál.

Miðað við magn auglýsinga skil ég afhverju stöðin rak sig ekki, og þá þarf einnig að hafa í huga gríðarlegan stofnkostnað. En ef á að spara (og bæta gæði fréttanna) skil ég ekki af hverju Sigmundur Ernir heldur áfram sem fréttastjóri. Maðurinn á að halda sig við að lesa fréttir. Honum hentar best að vera karlkyns útgáfa af Eddu Andrésar.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband